Borgaraleg þáttaka, millilending, loftslagsbreytingar og ad infinitum - a podcast by RÚV

from 2022-02-16T16:05

:: ::

Hvar áttir þú síðast í óvæntu samtali við manneskju sem þú hittir fyrir einskæra tilviljun? Hefur þú gaman af slíkum samtölum? Ef svo er þá ættir þú að skella þér í Borgarbókasafnið í Grófinni, setjast niður við borðstofuborð sem þar hefur verið komið fyrir, og ræða við myndlistarkonuna Guðnýju Söru Birgisdóttur. Guðný Sara hefur verið valin til að taka þátt í Stofunni þennan mánuðinn, en stofan er tímabundið og tilraunakennt samfélagsrými þar sem velt er upp spurningum um hlutverk og tilgang safnsins. Við förum í Grófina í þætti dagsins og fáum okkur sæti í stofunni með Guðný Söru og Dögg Sigmanrsdóttur, vekrefnastjóra borgaralegrar þátttöku hjá Borgarbóksafninu. Við rifjum upp millilendingu í þætti dagsins. Eftir þátttöku sína á friðarráðstefnu á Waldorf Astoria hótelinu fræga í New York, millilenti sovéska tónskáldið Dimitri Shostakovich á Keflavíkurflugvelli í byrjun apríl árið 1949. Við rifjum upp sérstætt viðtal sem tekið var við tónskáldið á vellinum, tilefnið er flutningur á níundu sinfóníu tónskáldsins á tónleikum sinfóníuhljómsveitar Íslands annað kvöld, en tónleikahald sveitarinnar er hægt og rólega að leita í eðlilegan farveg. Leikskáldið Birnir Jón Sigurðsson sendir okkur pistil í þætti dagsins frá Helsinki þar sem hann er staddur. Næstu vikurnar ætlar Birnir Jón að fjalla í nokkrum pistlum um loftslagsbreytingar og þá jafnvel út frá nokkuð stærra samhengi en því samhengi úrlausna og hindrana sem þær birtast oftast í. Og Birnir byrjar þessar hugleiðingar sínar á nokkuð stórum skala enda hafa loftslagsbreytingar meiri áhrif og afleiðingar í samhengi jarðarinnar en nokkuð annað sem mannkyn hefur reynt, þó þær gerist nú á ótrúlega skömmum tíma út frá jarðsögulegu samhengi. Hann spyr: getum við sem einstaklingar náð utan um loftslagsbreytingar? Og þurfum við þess? Ólöf Gerður Sigfúsdóttir sjónmenningar-rýnir Víðsjár skoðaði sýninguna Ad Infinitum, sem nú stendur yfir í Gerðarsafni og er hluti af Ljósmyndahátíð í Reykjavík. Gúmmíteygjur, fimmblaðasmári og seiðandi hljóðskúlptur vöktu forvitni Ólafar, sem segir frá upplifun sinni í safninu. Umsjón: Guðni Tómasson og Halla Harðardóttir

Further episodes of Víðsjá

Further podcasts by RÚV

Website of RÚV